Innlent

Styrmir svarar í Morgunblaðinu

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, kaus að tjá sig ekki um umfjöllum Fréttablaðsins í tengslum við Baugsmálið þegar fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar ræddi við hann í morgun. Hann vísaði í grein sem hann er að skrifa í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins. Ekki er að efa að grein Styrmis í Mogganum verður fróðleg. En það verður líka fróðlegt að sjá hvort þar komi fram svör við þeim spurningum sem fréttastofan ætlaði að leggja fyrir hann. Í tölvupósti til Jónínu Benediktsdóttir 1. júlí árið 2002 segir hann að hún og Jón Sullenberger þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu með Jón Steinar, hann sé algjörlega pottþéttur. Tryggð hanns við ónefndan mann sé innmúruð og ófrávíkjanleg. Spurningin er: Var þessi ónefndi maður Davíð Oddsson? Önnur spurning er af hverju bað Styrmir Jónínu um að eyða því sem hann kallaði fingraför Morgunblaðsins af tölvupósti sem átti að fara áfram til Jóns Sullenbergers? Í einum tölvupóstinum til Styrmis segir Jónína að það þurfi einhvern veginn að tala við Sullenberger og róa hann niður þannig að honum finnist hann ekki vera sekur. Og Jónína spyr, orðrétt: „Styrmir, heldur þú að Davíð væri til í að hringja í hann. Það held ég að virki langbest.“ Í samtali við Fréttablaðið segir Styrmir að hann hafi ekki haft bein samskipti við Davíð Oddsson um þetta mál. Spurningin er hvort hann hafi gert það óbeint. Og svo er auðvitað spurning hver var yfirleitt aðkoma ritstjóra Morgunblaðsins að þessu máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×