Innlent

Ekki góð vörn að benda á aðra

Það þykir ekki góð vörn í dómsmáli, að aðrir kunni að hafa sloppið með svipuð brot eða verri. Það gefur heldur ekki rétta mynd af íslensku viðskiptalífi að segja að hægt sé að gera alla stjórnendur fyrirtækja að glæpamönnum ef nógu grannt er skoðað. Þetta segir sérfræðingur í félagarétti. Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segir í Fréttablaðinu í dag að hann telji að hægt væri að gera alla stjórnendur og fyrirtækjaeigendur að glæpamönnum ef fyrirtæki þeirra væru skoðuð ofan í kjölinn. Áslaug Björgvinsdóttir, sérfræðingur í félagarétti, telur þetta ekki gefa rétta mynd af íslensku viðskiptalífi. Hún segist vona að svo sé ekki, að stjórnarhættir í íslensku viðskiptalífi séu vandaðari en svo að reikna megi með því að ef grannt sé skoðað gerist hver einasti stjórnandi og fyrirtæki brotleg við lög. Það sé í sjálfu sér ekki rök í málum sem rekin séu fyrir dómstólum að mögulega séu einhverjir aðrir úti í þjóðfélaginu sem hafi brotið á sama hátt. Vitað sé að það séu margir sem sleppa. Áslaug segir hlutina vissulega geta gerst hratt í viðskiptum og þá sé ef til vill oft dansað á línunni en mikilvægt sé í viðskiptum milli tengdra aðila að gæta formsins og fara að lögum og reglum sem séu í gildi vegna þess að í þess konar viðskiptum sé sú hætta frekar fyrir hendi og grunsemdir geti vaknað um að önnur sjónarmið ráði en hlutlaus viðskiptaleg sjónarmið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×