Innlent

Hverjum steini velt við

"Það er ljóst að hverjum steini hefur verið velt við í þessu fyrirtæki í rannsókninni," segir Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður. "Ákæruvaldið hefur lítið takmarkað sig við alvarleika brotanna, heldur tínt allt til sem mögulega gæti kallað á refsingu. Fyrir bragðið eru þarna ýmsir liðir sem eru hálfgerður sparðatíningur. Það gerir kæruna ótrúverðugri og ef til vill hefði því verið réttara að leggja áherslu á alvarlegustu liðina." Hróbjartur segir þó ákæruliði sem lúta til að mynda að tollsvikum og rangfærslu reikninga alvarlega. "Manni sýnist þó þarna um að ræða tæknilega meðferð á fjármunum frekar en auðgunarásetning." og ekki sé hægt að fullyrða neitt. "En eftir að hafa rennt yfir ákærurnar og þessar stuttu skýringar sýnist mér að það verði á brattann að sækja fyrir ákæruvaldið í vel flestum ákæruliðum. Heilt yfir er þessi ákæra ekkert mjög sannfærandi." Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður tók í svipaðan streng, en vildi þó lítið tjá sig um ákæruatriðin þar sem málið væri viðamikið og hann hefði engin frekari gögn en þau sem Fréttablaðið birti í gær. Hann segir þó þarn vera kært fyrir liði þar sem stjórnendur fyrirtækjanna eru í ákveðnum milliviðskiptum og þar vakni spurningar um sekt eða sakleysi. "Einhvern veginn virðist manni mjög sérkennilegt hvaða aðilar eru teknir til skoðunar og hverjir ekki hjá ákæruvaldinu hér á landi," segir Jón. "Það er ekki hreyft við því að kanna ákveðna hluti hjá ákveðnum fyrirtækjum, en aðrir eru alltaf undir smásjánni. Menn hafa fengið að ákæra eins og þá lystir án þess að bera nokkra ábyrgð á því, jafnvel af eintómri meinfýsi og síðan ganga menn keikir og halda störfum sínum þótt saklausir sakborningar hafi tapað öllu sínu. Jón, sem var verjandi í Hafskipsmálinu á sínum tíma, útilokar ekki að um pólitískar ákærur sé að ræða og minnir á Orca hópinn sem vakti reiði Davíðs Oddsonar á sínum tíma. "Allir þeir sem mynduðu hann að einum undanskildum hafa mátt þola ákærur." Hann segir pólitískar ákærur þó vera stórt orð og menn skyldu aldrei fullyrða um það.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×