Innlent

Viðbrögð Baugsfeðga við ákærum

Baugsfeðgarnir, þeir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir telja með ólíkindum að einn reikningur, sem lögreglan vissi ekki hvort væri debit eða kredit, skyldi vera tilefni hinnar miklu rannsóknar á fyrirtækinu. Þeir bera Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, þungum sökum. Það er nokkuð ljóst að þeir feðgar Jóhannes og Jón Ásgeir hafa valið þá leið að koma máli sínu á framfæri í dagblöðum, enda er það mikið að vöxtum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur í hvorugan þeirra náðst. Þeir tjá sig hinsvegar tæpitungulaust í Fréttablaðinu í dag og segja meðal annars að það sé augljóst að stjórnvöld hafi staðið fyrir atlögu að fyrirtæki þeirra og þar hafi verið fremstir í flokki þeir Davíð Oddsson, sem þá var forsætisráðherra og Jón Steinar Gunnlaugsson, sem á þeim tíma var lögmaður, en er nú hæstaréttardómari. Þeir segja einnig að Haraldur Jóhannesen, ríkislögreglustjóri hafi verið leiksoppur þeirra félaga. Jóhannes segir orðrétt: Stjórnvöld beittu sér til að brjóta á bak aftur fyrirtæki sem af einhverjum ástæðum var þeim ekki þóknanlegt. Jóhannes segir einnig að það hafi verið safnað fé til höfuðs þeim, í upphafi og hafi jafnvel Jón Steinar Gunnlaugsson hafi hringt í fyrirtæki til þess safna fé í sjóð til að fjármagna aðförina að Baugi. Jón Ásgeir segir í viðtali við Fréttablaðið að visst andrúmsloft hafi skapast á árunum 2001 og 2002 með gegndarlaugum árásum Davíðs Odssonar á Baug þar sem hann hótaði að brjóta upp félagið. Jón Ásgeir segir að Davíð hafi hótað Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs, að opinberir aðilar myndu herja á félagið. Þeim feðgum þykir með ólíkindum að einn reikningur frá fyrrverandi samstarfsmanni hafi orðið til jafn umfangsmikilla aðgerða og ríkislögreglustjóri greip til. Jón Ásgeir segir að menn þekki það að það sé ekki venjulega brugðist hratt við, þegar leitað er til efnahagsbrotadeildarinnar. Í þetta skipti hafi þeir fengið húsleitarheimild án þess að kanna hvort reikningurinn sem var tilefni innrásarinnar hafi verið debet eða kredit.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×