Erlent

Annar handtekinn í Lundúnum

Breska lögreglan handtók í dag annan mann vegna sprengjutilræðanna í Lundúnum, á fimmtudag. Ekki hefur verið upplýst hvort hann er einn af fjórum mönnum sem lýst er eftir vegna ódæðisins. Talsmaður lögreglunnar sagði aðeins að hann hefði verið handtekinn í hverfi í grennd við Stockwell járnbrautarstöðina, þar sem meintur hryðjuverkamaður var skotinn til bana í gær. Breskir múslimar hafa áhyggjur af því að breska lögreglan hefur fengið skipanir um að skjóta til að drepa gruni þá menn um að bera á sér sprengju. Ken Livingstone, borgarstjóri í Lundúnum sagði í gær, að í sérstökum tilfellum gæti það verið nauðsynlegt þar sem sjálfsmorðsárásarmenn gætu sprengt sprengjurnar væru þeir særðir. Til þess að koma í veg fyrir að saklausir borgarar láti lífið í slíkum tilfellum sé lögreglumönnum heimilt að skjóta menn í höfuðið, til þess að vera vissir um að þeir dræpust strax. Breska lögreglan segir að saklausir eigi ekki að vera í neinni hættu vegna þessa, ef þeir bara gæti þess að hlýða samstundis öllum fyrirmælum lögregluþjóna. Maðurinn sem var skotinn til bana, í gær, lagði hinsvegar á flótta og stökk yfir grindverk og girðingar, til þess að reyna að komast undan. Það var ekki fyrr en hann var kominn inn í mannfjölda á járnbrautarstöðinni, sem hann var skotinn til bana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×