Erlent

Bresk yfirvöld sofandi á verðinum

Chatham-house rannsóknarstofnunin sendi í gærkvöldi frá sér skýrslu, þar sem fullyrt er að stríðið í Írak hafi aukið stuðning við al-Qaeda og auðveldað bæði nýliðun og fjáröflun. Bretland væri fyrir vikið í meiri hættu en ella og tapaði á því að hafa fylgt Bandaríkjamönnum að máli. Það hafi reynst dýrt, bæði í mannslífum talið og einnig þegar litið væri til hryðjuverkavarna. Í skýrslunni eru leyniþjónustur Bretlands og yfirvöld gagnrýnd fyrir að hafa sofið á verðinum og einbeitt sér að írska lýðveldishernum IRA í stað þess að átta sig á hættunni sem stafaði af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.Það hafi ekki verið fyrr en seint á síðasta áratug sem íslamskir hryðjuverkamenn hafi vakið athygli yfirvalda, en fram að því hafi menn úr þeirra röðum getað athafnað sig vandræðalítið í Lundúnum. Skýrsluhöfundarnir viðurkenna hins vegar að nánast vonlaust sé að stöðva eða koma í veg fyrir samhæfðar sjálfsmorðsárásir, sem eru vinsælasta starfsaðferð al-Qaeda, eins og árásirnar í London sýndu. Ennfremur er varað við því að hryðjuverkamenn gætu reynt að komast yfir kjarnorku-, sýkla eða eiturefnavopn. Tækist þeim það væri ljóst að þeir myndi ekki hika við að beita slíkum vopnum og um leið drepa mikinn fjölda óbreyttra borgara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×