Erlent

Þrjátíu og átta biðu bana

Hryðjuverkamenn tengdir al-Kaída samtökunum létu til skarar skríða gegn Lundúnabúum í gærmorgun. Á háannatíma, þegar borgarbúar voru á leið til vinnu, sprengdu þeir fjórar sprengjur í neðanjarðarlestum og strætisvagni á tæpri klukkustund. Lengi vel lék vafi á hversu margar sprengingarnar voru og var um tíma talið að sjö tilræði hefðu verið framin. Þegar líða tók á daginn var ljóst að sprengjur höfðu sprungið í þremur lestum og einum strætisvagni. Að minnsta kosti 38 biðu bana og 700 slösuðust, sumir mjög alvarlega. Evrópsk samtök íslamskra öfgamanna, tengd al-Kaída, lýstu ábyrgð á verknaðinum í gær en yfirlýsing þeirra hefur ekki fengist staðfest. Árásirnar bar upp á upphafsdegi viðræðna leiðtoga G8-ríkjanna í Skotlandi. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hélt hins vegar til Lundúna og fundaði með ráðherrum og embættismönnum. Í ávarpi sínu til þjóðarinnar fordæmdi hann árásirnar harðlega og sagði að illvirkjunum myndi ekki takast ætlunarverk sitt. Elísabet Bretadrottning kvaðst miður sín yfir ódæðunum og vottaði þeim sem um sárt eiga að binda samúð sína. Fjöldi Íslendinga býr í Lundúnum eða er þar í sumarfríi. Nokkrir þeirra voru nærri vettvangi atburðanna en ekki er talið að þeir hafi slasast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×