Erlent

37 látnir; al-Qaida ábyrg

Þrjátíu og sjö hið minnsta voru myrtir í hryðjuverkaárásum í Lundúnum í dag. Hópur tengdur al-Qaida kveðst bera ábyrgð á sjö sprengingum á fjórum stöðum í borginni. Sprengingarnar urðu í röð hver á eftir annarri á háannatíma í morgun, sú fyrsta skömmu fyrir klukkan níu að staðartíma. Fjöldi sprenginganna var á reiki fram eftir degi en nú er ljóst að sjö sprengjur sprungu á fjórum stöðum: á milli Russel Square og King's Cross neðanjarðarlestarstöðvanna; á milli Moorgate, Aldgate og Liverpool Street stöðvanna; sú þriðja nærri Edgware Road og sú fjórða á Tavistock Square þar sem sprengja sprakk í strætisvagni og þeytti af honum þakinu. Aðstæðurnar á vettvangi voru slæmar: fólk kom sótugt, brunnið og misilla slasað upp úr neðanjarðarlestargöngunum. Sjónarvottar greindu frá líkum og fólki sem misst hafði útlimi. Lögregla og sjúkrahús voru þegar sett í viðbragðsstöðu, tugir voru fluttir á sjúkrahús og lögreglan hófst handa við að komast að því hvað væri á seyði. Nú er ljóst að um skipulagða hryðjuverkaárás var að ræða. Sjö fórust nærri Liverpool-Street stöðinni; tuttugu og einn var myrtur nærri King's Cross og fimm við Edgware Road. Ekki liggur fyrir hversu margir féllu þegar sprengjan sprakk í strætisvagninum en hugsanlegt er að tilræðismaðurinn sé þeirra á meðal og að sprengjan hafi sprungið of snemma. Lögregluyfirvöld segja ekki enn hægt að fullyrða hvort um sjálfsmorðssprengjuárásir var að ræða. Talið er að ekki færri en sjö hundruð séu sárir eftir árásir dagsins og á fjórða tug hafi verið myrtir í árásunum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×