Erlent

Öcalan fái réttláta málsmeðferð

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í gær að Kúrdaleiðtoginn Abdullah Öcalan hefði ekki hlotið sanngjarna málsmeðferð þegar tyrknesk yfirvöld réttuðu yfir honum á sínum tíma. Öcalan var leiðtogi Verkamannaflokks Kúrdistan og stýrði frelsisbaráttu þjóðar sinnar þegar hann var handtekinn árið 1999 og síðar dæmdur til dauða. Árið 2002 breyttu yfirvöld í Ankara dómnum hins vegar í ævilangt fangelsi. Í úrskurði Mannréttindadómstólsins segir að réttarhaldið yfir Öcalan hafi ekki verið sanngjarnt, meðal annars vegna þess að lögfræðingar hans fengu ekki að hafa við hann samband. Dómstóllinn hvetur tyrknesk stjórnvöld til að taka málið upp á nýjan leik og rétta aftur yfir Öcalan. Abdullah Gul, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði að rækilega yrði farið yfir úrskurðinn en minnti á að skæruliðasveitir Kúrda hefðu drepið fjölda manns. Almenningur í Tyrklandi er Kúrdum andsnúinn og því hefur úrskurður dómstólsins fallið í grýttan jarðveg þar. Tyrkir eru hins vegar í erfiðri stöðu því aðildarviðræður þeirra við Evrópusambandið hefjast í haust og varla er hægt að hugsa sér verri byrjun en að hafa tilmæli Mannréttindadómstólsins að engu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×