Innlent

Fyrsta lyfið byggt á erfðarannsókn

Fyrsta lyfið sem byggt er erfðarannsókn á algengum sjúkdómi í heiminum fer í þriðja og síðasta fasa lyfjaprófana á þessu ári ef fram heldur sem nú horfir. Um er að ræða hjartalyfið DG031. Í nýjasta tölublaði tímarits bandarísku læknasamtakanna, Journal of the American Medical Association; JAMA, er birt grein eftir vísindamenn og samstarfsaðila Íslenskrar erfðagreiningar um niðurstöður lyfjaprófana á umræddu lyfi. Einnig er fjallað um greinina og almenna þýðingu niðurstaðnanna í ritstjórnargrein í blaðinu. Í greininni er lýst jákvæðum áhrifum lyfsins á ýmsa áhættuþætti hjartaáfalls. Greint er frá því að lyfið dragi úr myndun á öflugum bólguvaka sem erfðarannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt að tengist aukinni hættu á hjartaáföllum. Í greininni kemur einnig fram að lyfið hafi áhrif á ýmsa mikilvæga áhættuþætti hjartaáfalla sem tengjast bólgum í æðakerfinu. Þetta er í fyrsta sinn sem lýst er klínískri lyfjarannsókn á nýju lyfi á grundvelli erfðarannsókna á algengum sjúkdómi, að því er fram kemur í frétt frá ÍE. "Niðurstöðurnar sem við kynnum í þessari vísindagrein eru afar spennandi og sýna að það er hægt að nota grundvallaruppgötvun í erfðafræði til að þróa ný lyf gegn alvarlegustu heilbrigðisvandamálum samtímans," segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann segir enn fremur, að á grunni þessara niðurstaðna sé nú unnið að því að skipuleggja þriðja og síðasta fasa lyfjaprófana. Þar verður kannað hvort lyfið fækki hjartaáföllum í hópi einstaklinga sem taka lyfið miðað við hóp sem tekur lyfleysu. Þær rannsóknir munu fara fram á Íslandi og í fleiri löndum Evrópu og í Bandaríkjunum. Reiknað er með því að þær hefjist á seinni hluta þessa árs og taki rúm tvö ár. Ef niðurstöður þeirra verða jákvæðar verða næstu skref leyfisumsóknir, skráning og markaðssetning lyfsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×