Innlent

Fischer: Verstu dagar lífs míns

„Þetta voru fjórir verstu dagar lífs míns,“ sagði Bobby Fischer er hann hringdi til stuðningshóps síns hér á landi í morgun. Sæmundur Pálsson gladdist þegar hann heyrði kunnuglega rödd í farsíma sínum þegar hann, Guðmundur G. Þórarinsson og Einar S. Einarsson sátu yfir kaffibolla á Café París, skömmu eftir fund þeirra með allsherjarnefnd Alþingis. Í tilkynningu frá stuðningsmannahópnum er haft eftir Fischer að eftir að gleraugu eins fangavarðar hafi brotnað í ryskingum, þegar skákmeistarinn var dreginn frá símanum sl. mánudag, hafi hann verið fluttur í niðurnýdda álmu í „innflytjendabúðunum“ og látin hýrast þar í illa þefjandi klefa í fjóra sólarhringa. Ljós voru látin loga alla sólarhringinn og sífellt verið að breyta styrkleika þeirra. Því hafi þetta verið líkara pyntingabúðum en venjulegu fangelsi. Sendifulltrúi Japans hér á landi fullyrti við nefndarmenn í desember sl. að Fischer væri ekki í fangelsi heldur á eins konar farfuglaheimili þar sem ólöglegir ferðamenn eða innflytjendur væri vistaðir tímbundið. Annað hefur heldur betur komið í ljós, að sögn stuðningshópsins, og hefur Fischer mátt þola illa vist í heila níu mánuði, eða „248 langa daga“, eins og segir í tilkynningunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×