Innlent

Fischer losni eftir tvo daga

Lögfræðingur Bobbys Fischers bindur vonir við að Fischer losni úr fangelsi og geti yfirgefið Japan á afmælisdaginn sinn, eftir tvo daga. Hún fékk vegabréf hans í hendur í dag og Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, segir að Davíð Oddsson og íslenska ríkisstjórnin hafi veitt Fischer stórkostlega aðstoð.  Þetta hefur verið viðburðarríkur dagur hjá fólkinu sem vinnur hörðum höndum að því að fá Bobby Fischer lausan úr fangelsi í Japan. Í morgun hitti Sæmundur Pálsson Fischer í fyrsta sinn síðan í heimsmeistaraeinvíginu í Reykjavík árið 1972. Sæmundur sagðist hafa átt í mestu erfiðleikum með að þekkja sinn forna vin því hann sé kominn með sítt hár og skegg eftir átta mánaða dvöl í fangelsinu. Síðar í dag fékk lögfræðingur Fischers, Masako Suzuki, svo hið íslenska vegabréf hans í hendur og það ríkti því ósvikin gleði á meðal vina Fischers í dag. Suzuki sagði þetta mjög stórt skref því sé nú sé ljóst að skákmeistarinn geti farið hvert sem er án nokkurra vandræða. Suzuki ætlar að fara í dómsmálaráðuneyti Japans á morgun og hún bindur vonir við að hann losni fljótlega úr prísundinni, jafnvel eftir tvo daga. Það má segja að það yrði táknrænt ef orð Suzukis rætast því ekki á morgun heldur hinn er 9. mars, afmælisdagur Fischers, sem þá verður 62 ára. Sæmundur Pálsson segir þetta vera stóran dag í baráttunni. Hann vonaðist eftir því áður en hann hélt til Japans að geta afhent Fischer vegabréfið í afmælisgjöf.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×