Innlent

Fischer enn haldið í einangrun

Enn er Bobby Fischer haldið í einangrun og enginn fær að heimsækja hann í fangelsið í Japan. Opinn flugmiði til Íslands bíður hans og vonast stuðningsmenn hans til að hann verði leystur úr haldi fyrir 62 ára afmælisdag hans í næstu viku. Það er kalt í Japan um þessar mundir og óvenju mikill snjór í Tókýó. Annan daginn í röð var stuðningsmönnum Fischers meinað að hitta hann en honum hefur verið haldið í einangrun síðan stuðningsmennirnir komu til Japans. Þeir héldu fjölsóttan blaðamannafund í morgun. Miyoko Watai, lögmaður Bobbys Fischers, sagði á fundinum að stuðningsmönnunum hefði verið neitað um að hitta hann og þá gæti hún ekki lengur hringt í hann, en áður hefði hún talað fjórum til sex sinnum á dag við hann. Stuðningsmennirnir hafa beðið um fund með japönskum stjórnvöldum en ekki fengið svar og fá væntanlega ekki fyrr en eftir helgi. Á meðan bíður vegabréfið, Fischer getur ekki sótt það og íslensk stjórnvöld hafa ekki farið fram á það verði fært til hans. Guðmundur Þórarinsson, stuðningsmaður Fischers, sagði á blaðamannafundinum að stuðningsmennirnir fengju ekki einu sinni að tala við japanska embættismenn. Það virtist, þegar litið væri á þennan undarlega heim missættis sem við byggjum í, að stuðningsmennirnir berðust við einhvers konar kerfi, einhverjar manneskjur sem enginn vissi hverjar væru. Opinn flugmiði hefur verið keyptur handa Fischer og vonast Sæmundur Pálsson, vinur hans, til að hann verði látin laus fyrir afmælisdaginn 9. mars, en þá verður Fischer 62 ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×