Innlent

Fischer: Skelfileg vonbrigði

Allsherjarnefnd Alþingis leggur ekki til að Bobby Fischer fái íslenskan ríkisborgararétt að svo stöddu. Guðmundur G. Þórarinsson, sem er í stuðningshópi Fischers, segir að þetta séu skelfileg vonbrigði. Á fundi sínum í morgun ræddi allsherjarnefnd meðal annars mál Bobby Fischers og var það niðurstaðan að ekki yrði lagt til við Alþingi að Bobby Fischer fengi ríkisborgararétt á Íslandi. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við fréttastofuna að umsókn Fischers byggðist á því að með íslenskum ríkisborgararétti styrkti það stöðu hans gagnvart stjórnvöldum í Japan. Það séu deilur sem hann sé ekki viss um að Íslendingar vilji blanda sér í. Guðmundur G. Þórarinsson segir að stuðningsmenn Fischers hafi bundið miklar vonir við það í þessu mikla mannúðarmáli að Íslendingar myndu treysta sér að stíga þetta skref. Það hefði vakið alheimsathygli og mælst vel fyrir. „Mér finnst margt stangast á í ákvörðunum okkar Íslendinga ef menn treysta sér ekki til þess að blanda sér í deilu um vegabréf í Japan, en treysta sér til að taka ákvarðanir um að ráðast á Írak með Bandaríkjamönnum án mikils umhugsunarfrests,“ segir Guðmundur.  Guðmundur veltir því fyrir sér hvort allsherjarnefnd hefði misskilið þróun málsins. Samkvæmt japönskum lögum eigi að senda fólk með ógild vegabréf til þess lands sem þeir ættu ríkisfang í. Fischer hefði sjálfur höfðað mál til þess að forða því eða fresta að vera sendur til Bandaríkjanna. Ef hann fengi íslenskt ríkisfang væri hægt að senda hann hingað og það fæli ekki í sér neina deilu við japönsk stjórnvöld.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×