Innlent

Beiðni Fischers umdeild

Bobby Fischer hefur póstlagt beiðni um íslenskan ríkisborgararétt. Stjórnvöld hafa ekki tekið afstöðu en formanni Vinstri grænna líst ekki vel á að veita Fischer ríkisborgararétt án þess að huga að fordæminu sem það skapi. Formanni Samfylkingarinnar líst hins vegar mjög vel á og segir Fischer hafa sérstöðu umfram aðra sem sækja um íslenskt ríkisfang. Dómari í Japan féllst í gær ekki á að Fischer verði fluttur úr fangelsi í Japan og til Íslands að óbreyttu. Lögfræðingar hans segja að það myndi hjálpa ef Fischer fengi íslenskan ríkisborgararétt og hann hefur nú þegar skrifað slíka beiðni og póstlagt, að sögn Sæmundar Pálssonar sem ræddi við hann í nótt. Fischer gæti fengið íslenskan ríkisborgararétt með lagasetningu strax í næstu viku þegar þing kemur saman, ef frumvarp þess efnis yrði lagt fram. Ekkert slíkt frumvarp er hins vegar í smíðum af hálfu stjórnarliða, enda hafa stjórnvöld ekki enn fengið beiðnina í hendur og hafa ekki tekið afstöðu. Samkvæmt heimildum fréttastofu liggur þó alls ekki beint við að stjórnarliðar leggi fram slíkt frumvarp. Það má heyra á Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna, að honum líst ekki mjög vel á að veita Fischer ríkisborgararétt. Hann segir að ekki sé hægt að afgreiða slíkt sem einangraðan hlut. Það þurfi að átta sig á því hvort slíkt sé fordæmisgefandi sem væri þá í samhengi við einhvers konar stefnu sem um slíkt væri mótuð. „Ég var og er því hlynntur að við reynum að hjálpa þessum manni, ef við getum orðið honum að liði í hans erfiðleikum og veikindum, en það verður auðvitað að vera fært á einhverjum efnislegum og málefnalegum forsendum,“ segir Steingrímur.  Steingrímur segir það ótímabært að segja til um hvort hann muni greiða atkvæði með eða á móti frumvarpi um ríkisborgararétt handa Fischer en segir aðspurður að hans flokkur muni ekki leggja fram slíkt frumvarp. Það standi upp á stjórnarflokkana, enda hófu þeir málið. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar er mun jákvæðari. Honum finnst þetta góð hugmynd sem skoðast eigi ákaflega vel og á von á að ákaflega margir þingmenn myndu taka frumvarpinu vel. Spurður hvort til greina komi að Samfylkingin leggi fram frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar til handa Fischer segir Össur að ef málið komi til kasta þingsins sé nauðsynlegt að þverpólitísk samstaða náist og standi því saman að frumvarpinu. Össur segir að Fischer hafi sérstöðu umfram aðra sem sækja um ríkisborgararétt vegna sögu hans og afreka í skáklistinni. Þetta ætti því ekki að hafa fordæmisgefandi áhrif á aðra sem sækja um slíkan rétt.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×