Innlent

Gæti fengið flýtimeðferð þings

Bobby Fischer hefur beðið ríkisstjórn Íslands um ríkisborgararétt að sögn Sæmundar Pálssonar, vinar skákheimsmeistarans fyrrverand, eftir að japönsk stjórnvöld höfnuðu ósk hans um að fá að nýta sér dvalarleyfi á Íslandi. Samkvæmt stjórnarskránni þarf lagasetningu Alþingis til að veita erlendum manni ríkisborgararétt á Íslandi. Það mál kemur til kasta allsherjarnefndar þingsins að fengnum tillögum dómsmálaráðuneytis. "Það er gert tvisvar á ári en það er ekkert því til fyrirstöðu að halda sérstakan fund ef nauðsyn krefur," segir formaður nefndarinnar Bjarni Benediktsson. Guðríður Lilja Grétarsdóttir, talsmaður íslensku Fischernefndarinnar, segir afstöðu japanskra stjórnvalda valda vonbrigðum en nú muni vinir Fischers hvetja stjórnvöld til að veita honum ríkisborgararétt. Lagaákvæði virðast í fljótu bragði ekki veita stjórnvöldum mikið svigrúm enda meðal annars krafist langrar búsetu á Íslandi og að viðkomandi sé ekki "sakaður um refsiverða háttsemi". Á hinn bóginn hefur Vladimir Azhkenazy píanóleikara og mörgum íþróttamönnum verið veittur ríkisborgararéttur með skjótum hætti.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×