Innlent

Fischer svartsýnn á lausn

Japanska dómsmálaráðuneytið gaf í skyn í morgun að eðlilegra væri að senda Bobby Fischer til Bandaríkjanna en Íslands. Sæmundur Pálsson segir vin sinn Fischer svartsýnan á lausn málsins. Einn lögfræðinga Fischers fór á fund í dómsmálaráðuneytinu í Japan í morgun. Þar var honum enn tjáð að eðlilegast væri að senda Fischer til Bandaríkjanna en ákvörðun hafi ekki verið tekin, eða sömu svör og gefin hafa verið undanfarin. „Maður veit ekki hvort þeir séu að bíða eftir einhverju eða þeir séu að fresta þessu til að halda andlitinu,“ segir Sæmundur. Að sögn Fischers vísar hver á annan og kallar Sæmundur þetta „royal-run-around“; málið er sífellt dregið á langinn með þessum vísunum á víxl. Sæmundur hefur verið í startholunum frá því fyrir jól að fara að sækja hann til Japans en útlit er fyrir að hann verði að bíða enn um sinn. Þrátt fyrir að japönsk yfirvöld hafi gefið það í skyn að þau ætli ekki að hleypa Fischer til Íslands segist Sæmundur nokkuð vongóður um að málið leysist farsællega. Og hann er tilbúinn að halda utan hvenær sem er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×