Innlent

Guðmundur Árni til Svíþjóðar

Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, verður sendiherra Íslands í Svíþjóð í haust samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins. Jafnframt er ákveðið að Svavar Gestsson, núverandi sendiherra í Stokkhólmi, flytjist til Danmerkur og verði sendiherra í Kaupmannahöfn. Samkvæmt sömu heimildum verður Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mannfræðiprófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi þingmaður Kvennalistans einnig sendiherra í utanríkisþjónustunni sem og Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri. Ekki hefur verið gengið endanlega frá því hvert þau fara og jafnvel er búist við því að þau taki ekki við embætti fyrr en um áramót. Orðrómur hefur þó verið um að Markús Örn verði sendiherra í Kanada. Fleiri breytingar eru fyrirhugaðar næsta haust samkvæmt framgangskerfi utanríkisþjónustunnar og verður formlega tilkynnt um þær innan tíðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×