Hildur Vala Einarsdóttir, 23 ára Reykvíkingur, var í kvöld valin Idol-stjarna Íslands.
Hildur Vala atti kappi við Heiðu í úrslitum Idol-stjörnuleitarinnar sem fram fóru í beinni útsendingu Stöðvar 2 frá Smáralind. Hildur Vala söng The boy who giggled so sweet, Líf og Án þín. Heiða söng Ég veit þú kemur, Líf og Slappaðu af.

135 þúsund atkvæði
Gríðarleg stemning var í troðfullri Smáralindinni og buðu þær Heiða og Hildur Vala upp á sannkallaða tónleika, stigu vart feilspor. Dómaratríóið varð nær uppiskroppa með lýsingarorð, slík var hrifningin.
Valdið var hins vegar áhorfenda, þeir kusu með því að senda SMS eða hringja í 900-númer og bárust samtals 135 þúsund atkvæði. Mjótt var á munum en það fór svo að Hildur Vala hlaut örlítið fleiri atkvæði en Heiða og hlaut því titilinn Idol-stjarna Íslands 2005.
Hún tekur við titlinum af Kalla Bjarna sem var valinn fyrsta Idol-stjarna Íslands í fyrra.
Á Hólmavík og Gauk og stöng
Skipulagðar kosningavökur voru á vegum stuðningsfólks Heiðu og Hildar Völu. Stuðningsmenn Heiðu komu saman í félagsheimilinu á Hólmavík og lætur nærri að tæplega 60% íbúa sveitarfélagsins hafi verið þar samnkomin til að fylgjast með úrslitakeppninni.
Þeir sem studdu Hildi Völu lögðu Gauk á Stöng undir sig og þar var engu minni stemning en vestur á Hólmavík. Hildar Völu, nýrrar Idol-stjörnu Íslands bíður nú mikið verk en skipulagning fyrstu skrefa ferils hennar verður í höndum Einars Bárðarsonar, „umboðsmanns Íslands“.


