Innlent

Tunnur með spilliefnum grafnar

Starfsmaður Impregilo á Kárahnjúkum hefur verið rekinn eftir að hafa grafið í jörðu tvær 200 lítra tunnur með tuskum sem notaðar höfðu verið til þess að hreinsa olíu. Umverfissvið Impregilo komst að þessu í gær eftir að hafa fengið ábendingar um málið. Í yfirlýsingu frá Impregilo segir að tuskurnar flokkist sem spilliefnaúrgangur og að hann hafi ekki verið losaður samkvæmt reglum fyrirtækisins. "Þó svo að aldrei hafi verið hætta á ferðum hefur þegar hefur verið gripið til ráðstafana til þess að útiloka að umhverfistjón hljótist af," segir í yfirlýsingunni. "Ástæðu atviksins má rekja til starfsmanns er vildi einfalda sér vinnuna og í stað þess að losa úrganginn með eðlilegum hætti ákvað hann að fara þessa óheppilegu leið. Þessum einstakling hefur þegar verið sagt upp störfum. Leiði rannsókn í ljós að aðrir starfsmenn fyrirtækisins hafi verið viðriðnir þetta atvik mun Impregilo einnig bregðast við með sama hætti hvað þá varðar." Í yfirlýsingu Impregilo segir að viðeigandi yfirvöldum hafi þegar verið tilkynnt um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×