Innlent

Kaupmáttur launa rýrnar

Kaupmáttur almennra launa í landinu rýrnaði um 0,6 prósent frá árinu áður samkvæmt nýrri launaúttekt Kjararannsóknarnefndar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Er þá miðað við sama tímabil árið 2003 en regluleg laun hækkuðu um 1,5 prósent á þessu tímabili. Vísitala neysluverðs hækkaði að sama skapi um 2,1 prósent og því rýrnar kaupmátturinn sem þessu nemur. Úrtak nefndarinnar er tæplega átta þúsund launþegar en á tímabilinu fékk aðeins lítill hluti þeirra launahækkun. Nýir kjarasamningar sem gerðir voru koma einungis að litlu leyti inn í þessar tölur nefndarinnar þar sem ósamið var við marga aðila fram eftir vori. Í úttektinni kemur fram að laun kvenna hækkuðu lítillega meira en laun karla eða um 0,1 prósent. Landsbyggðin heldur áfram að dragast aftur úr höfuðborgarsvæðinu um sem nemur 1,3 prósentustigum. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, segir að áhrif kjarasamninga komi lítið inn í þessa könnun en ljóst sé að lítið þurfi út af að bera til að verðbólgan fari af stað. "Það skiptir höfuðmáli að halda aftur af verðbólgunni og þessi könnun ber það með sér að lítið þarf til. Það ber hins vegar að ítreka að áhrif þeirra samninga sem hafa verið gerðir undanfarið eru varla marktækir í þessari könnun. Þeir munu koma fram í næstu könnun og þá ættu að mælast þær almennu hækkanir sem fólk fær þar upp á 3.25 prósent." Kjararannsóknarnefnd kannaði einnig meðallaun fjögurra starfsstétta í landinu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Kemur þar í ljós að meðallaun fiskvinnslufólks voru rúm 136 þúsund krónur, iðnaðarmenn voru að jafnaði með 230 þúsund, afgreiðslufólk með 120 þúsund og skrifstofufólk með tæp 190 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×