Innlent

Rúmlega 30% kostnaðarauki

Sveitarstjórnarmenn segja að kostnaðarauki vegna nýrra samninga við kennara nemi líklega rúmlega þrjátíu prósentum fyrir sveitarfélögin. Þannig er talið að kostnaðarauki Reykjavíkurborgar nemi um það bil einum milljarði króna á ári. Laun kennara hækka um nálægt 25 prósent á samningstímanum, sem er fram í maí, árið 2008. Þeir fá 130 þúsund króna eingreiðslu strax og 75 þúsund króna eingreiðslu næsta sumar. launin hækka strax um 5,5 prósent, afturvirkt til fyrsta oktober, um þrjú prósent um áramót, tvö og hálft prósent árið 2006, um 2,25% í ársbyrjun 2007 og um sömu tölu í upphafi árs 2008. Þá fá þeir tveggja prósenta viðbótarlífeyrisgreiðslur frá vinnuveitendum og tæplega 49 þúsund króna persónuuppbót, eða annaruppbót, í lok hverrar skólaannar. Kennsluskylda kennara verður lækkuð um eina klukkustund á viku á næsta ári og um aðra klukkusutnd á þarnæsta ári og verða þær þá komnar niður í 26 stundir á viku. Kennarar eiga á móti að nota tímann til undirbúnings. Samningamenn kennara leggja til við kennara að tillagan verði samþykkt. Nýi samningurinn, sem undirritaður var hjá ríkissáttasemjara í gær, verður nú borinn undir atkvæði og sjötta desember á að liggja fyrir hvort hann verður samþykktur, eða felldur, en verði hann felldur, hefst verkfall væntanlega á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×