Innlent

Mótmæli ítrekuð á Seltjarnarnesi

Áhugahópur um betri byggð á Seltjarnarnesi hefur mótmælt samþykkt meirihluta bæjarstjórnar Seltjarnarness um breytingu á aðalskipulagi bæjarins. Telur hópurinn að hún gangi þvert gegn vilja 1.100 Seltirninga sem mótmæltu breytingunni. Í yfirlýsingu frá hópnum segir að aldrei hafi fleiri bæjarbúar andmælt skipulagsáformum bæjaryfirvalda, enda samsvari tala undirskrifta um 44 prósentum gildra atkvæða í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Samkvæmt skipulaginu munu sjö íbúðarblokkir og knattspyrnuvöllur rísa á einum fegursta útsýnisstað á Seltjarnarnesi að mati hópsins. Þá mun skipulagið hindra eðlilega þróun miðbæjarins auk þess sem bílaumferð við skóla mun vaxa til muna. Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segist gera sér vonir um að unnt verði að koma verulega til móts við óskir íbúa um breytingar á skipulaginu. Skipulagsnefnd bæjarins vinni nú að nýjum útfærslum á deiliskipulagi og ætlunin sé að lækka byggingar, draga úr byggingarmagni og fjölda íbúða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×