Innlent

Krani fellur á hús

Mildi þykir að ekki urðu slys á fólki þegar 50 tonna byggingakrani féll á nýbyggingu í Hafnarfirði síðdegis. Tuttugu manns voru við vinnu í húsinu þegar slysið varð. Það var hávaðarok í Hafnarfirði á fimmta tímanum, þegar kraninn, sem er í eigu byggingafyrirtækisins Feðgar ehf., tvíbrotnaði yfir fimm hæða íbúðarblokkina við Daggarvelli. Tuttugu manna hópur var við vinnu í húsinu þegar kraninn féll og aðeins einn þeirra hlaut minniháttar áverka. Þeim var eðlilega afar brugðið, líkt og kranamanninum Daníel, sem telja má víst að sé ekki feigur, en hann sat í bifreið, í minna en meters fjarlægð frá krananum, þar sem han skall til jarðar. Hann segist hafa orðið nokkuð skelkaður enda vinnur hann við þessi tæki alla daga. Hann segir að eftir mikla vindhviðu hafi turninn einfaldlega gefið sig. Enn er á huldu hvað varð þess valdandi að kraninn gaf sig, en slíkum tækjum er haldið niðri með massívum steypuklumpum og þeir eiga að sjálfsögðu að geta staðið af sér miklar vindhviður. Rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði og Vinnueftirlitið munu meðal annars kanna hvort tækjabúnaður í krananum hafi gefið sig eða hvort um mistök hafi verið að ræða. Tjón vegna skemmda á byggingunni er ekki talið mikið, en það gefur auga leið að fimmtíu tonna kraninn sem metinn er á á um átta milljónir króna verður ekki notaður aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×