Innlent

Sýknaður af manndrápsákæru

Tvítugur maður var sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Maðurinn var talinn hafa ekið bifreið sinni of hratt miðað við aðstæður og ekki gætt nægrar varúðar þegar árekstur við aðra bifreið olli banaslysi. Áreksturinn varð á Reykjanesbraut þann 24. september í fyrra, skammt frá gatnamótunum við Grindavíkurveg, en þar missti maðurinn stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún fór hægra megin út í vegöxlina, rakst á ljósastaur og kastaðist yfir á mótlæga akrein á aðra bifreið sem kom þar að. Ökumaður þeirrar bifreiðar lést af völdum áverka sem hann fékk. Í dómnum segir að ekki hafi verið upplýst á óyggjandi hátt að maðurinn hafi sýnt af sér refsivert gáleysi í umferðinni. Þá sé óupplýst hvers vegna hann missti stjórn á bifreið sinni; ekki sé loku fyrir það skotið að bifreiðin hafi bilað skömmu fyrir áreksturinn eða hjólbarði sprungið. Maðurinn var því sýknaður af ákærunni og ríkissjóði gert að greiða sakarkostnað, þar á meðal málsvarnarlaun verjanda.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×