Innlent

15 mánaða dómur fyrir kókaínsmygl

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi tvo karlmenn í dag í fimmtán mánaða fangelsi hvorn fyrir kókaínsmygl og fyrir að reyna að koma sér hjá því að greiða aðflutningsgjöld af hnefaleikabúnaði. Mennirnir, sem voru þá á þrítugs- og fertugsaldri, voru handteknir við komuna í Leifsstöð frá Amsterdam í byrjun desember á síðasta ári. Við leit á þeim fundust tæplega 325 grömm af kókaíni, sem reyndist mjög hreint, en auk þess framvísuðu þeir lægri reikningi af tveimur vegna hnefaleikavarnings. Þeir neituðu að hafa ætlað að flytja fíkniefnin til landsins í söluskyni en dómurinn taldi þær skýringar þeirra ótrúverðugar. Meðal fjármuna sem þeir notuðu við fíkniefnakaupin voru fjármunir sem þeir fengu frá Hnefaleikafélagi Hveragerðis en þeir ætluðu að kaupa búnað fyrir félagið. Héraðsdómur taldi eðlilega refsingu fimmtán mánaða fangelsi sem ekki væri ástæða til að skilorðsbinda. Þá voru fíkniefnin og hnefaleikavarningurinn gert upptækt.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×