Innlent

Ekki pláss fyrir áfengissjúka

"Við höfum ekki pláss til að taka við öllum þeim fjölda fólks sem hefur verið lagt inn á Vog. Við höfum sárafá pláss, en höfum í vaxandi mæli reynt að meðhöndla fólk á göngudeildum og dagdeildum." Þetta segir Halldóra Ólafsdóttir, yfirlæknir á bráðamóttöku geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss, um þann niðurskurð á þjónustu við áfengissjúka sem boðaður hefur verið á Vogi vegna fjárskorts. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir þar, hefur boðað að loka verði unglingadeild, hætta meðferð ópíumfíkla, skera niður flýti- og bráðamóttöku og fækka innlögnum úr 2.350 í 2.100 eftir áramót. Með þessu móti ætlar sjúkrahúsið að spara 45 milljónir. Um 40 unglingar undir 16 ára aldri voru lagðir inn á Vog á síðasta ári. Um 40–45 ópíumfíklar eru þar í meðferð. Þeim hefur fjölgað um 15 á rúmu ári. Kostnað hefur SÁÁ borið einhliða. Um 2.500 ráðgjafarviðtöl eru veitt árlega. Flýtiinnlagnir í framhaldi af því hafa verið um 700. Þá hafa verið 100 innlagnir þar sem sjúklingar hafa komið frá bráðamóttöku spítalanna og verið lagðir beint inn. Þessir 800 hefðu ella þurft að fara á biðlista. "Við komum þessari þjónustu á fyrir nær tveimur árum vegna vaxandi hlutdeildar okkar í bráðaþjónustunni, þegar Landspítalinn dró úr henni," sagði Þórarinn. "En við getum ekki haldið þessu úti lengur. Eftir áramót verðum við að óbreyttu að vísa fólki á bráðamóttökur spítalanna." Sigurður Guðmundsson landlæknir sagði mjög miður ef starfsemi SÁÁ raskaðist. Ekki síst umönnun svokallaðra ópíumfíkla, sem áður hefðu leitað til lækna úti í bæ. "Þetta hefur gjörbreytt stöðu þessara fíkla. Það er miklu minna um að við fáum ábendingar og kvartanir um vandamál tengd meðferð þeirra. Hún hefur batnað mikið og orðið skipulagðari eftir að hún fluttist á Vog." Þá sagði landlæknir áhyggjuefni ef unglingadeildinni yrði lokað. Hann kvaðst vænta þess að til þessa samdráttar í starfi SÁÁ kæmi ekki í þeim mæli er boðað hefði verið. "Við þurfum að leita allra leiða til að sinna heilbrigðisþjónustunni sem best," sagði hann,"en við höfum ekki ótakmarkað fé til þess."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×