Innlent

Rekin af hundasýningu

Hundar af öllum stærðum og gerðum komu saman á hundasýningunni „Hvuttadögum“ sem fram fer nú um helgina. Hundarnir hafa verið til mikillar fyrirmyndar en hegðun mannfólksins vakti athygli. Einn sýnenda var rekinn af sýningunni vegna fjölskyldutengsla sinna.  Sesselja Tómasdóttir var ein þeirra sem ætlaði að kynna hundategund á Hvuttadögum. Hún hafði komið sér fyrir í sýningarbás þar sem ætlunin var að kynna langhunda fyrir sýningargestum. Skömmu fyrir opnum var henni hins vegar tjáð að vegna tengsla hennar við hundaræktunina í Dalsmynni, vildu aðrir sýnendur að hún tæki ekki þátt í Hvuttadögum. Sesselja, sem er dóttir eigenda Dalsmynnis, segist hafa orðið mjög undrandi og hreinlega vera miður sín. Hún líkir þessu við kjaftshögg.  Eins og kunnugt er hafa skærur verið á milli Dalsmynnis, sem tilheyrir félaginu Íshundum, og Hundaræktarfélags Íslands. Aðstandendur Hvuttadaga eru þó óháðir slíkum félögum og segjast hafa alið þá von í brjósti að hundaræktendur og eigendur myndu leggja niður vopn og skemmta sér um helgina í návist dýranna. Sýningarstjórinn, Jón Ísleifsson, segist skilja særindi Sesselju. Aðrir sýnendur hefðu hins vegar sett honum stólinn fyrir dyrnar; annað hvort færi Sesselja af sýningunni eða þeir. Jón segir að allir séu á móti starfseminni og að hinir þátttakendurnir hefðu ekki treyst sér til að vera á staðnum ef Sesselja væri þar. Aðspurður segir hann miklar tilfinningar í hundaheiminum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×