Innlent

40 kindur drápust í brunanum

Fjörutíu kindur brunnu inni þegar kviknaði í hlöðu og fjárhúsi við bæinn Hrútatungu í Hrútafirði í gærkvöld. Um 100 skepnur voru í fjárhúsinu. Slökkvilið frá Hvammstanga, Borðeyri og Búðardal voru kölluð út en húsið var alelda þegar þau mættu á staðinn á níunda tímanum. Um 20 stiga frost var í Hrútafirði í gærkvöld sem gerði slökkviliði erfitt fyrir og gerði það að verkum að sækja þurfti vatn til slökkvilstarfsins frá Búðardal. Bóndinn á bænun, Gunnar Sæmundsson, reyndi að komast inn til að opna innan frá og hleypa kindunum út en það tókst ekki. Svo hafðist að opna utan frá en þá voru fjörutíu kindur dauðar. Hann segir óglæsilegt yfir að líta núna. Þakið á hlöðunni er ónýtt eftir brunann en veggir hennar eru úr steini og standa því enn. Gunnar segist eiga eftir að fá tjónið metið að fullu.  Gunnar var fluttur á heilbrigðistofnun Hvammstanga vegna gruns um reykeitrun en hefur fengið að fara heim. Eldsupptök eru ókunn en grunur leikur á að kviknað hafi í út frá dráttarvél sem var geymd í hlöðunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×