Innlent

Safnað fyrir fjölskyldu Feribu

Ákveðið hefur verið að efna til samskota handa fjölskyldu litlu stúlkunnar Feribu, sem lést þegar ráðist var á íslensku friðargæsluliðana í Kabúl 23. október. Söfnunin fer fram í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík næstkomandi fimmtudagskvöld. Þá verður söngsamkoma haldin þar. "Ég las grein um litlu stúlkuna og fjölskyldu hennar í Fréttablaðinu," sagði Kristinn Ásgrímsson, sem hefur forgöngu um samskotin. Hann starfar hjá Flugþjónustunni í Keflavík. "Þessi grein, þar sem fram kom að látna stúlkan væri fyrirvinna átta manna fjölskyldu sinnar, hreyfði við mér. Þarna er fólk í sorg og mig langaði að láta það vita að það stendur ekki öllum á sama um það." Sonur Kristins starfar að friðargæslumálum í Kabúl um þessar mundir. Kristinn sagði að leitað yrði leiða í samráði við hann til að koma peningunum sem myndu safnast til fjölskyldunnar. Samskotin verða auglýst í Víkurfréttum og sagði Kristinn að öll framlög væru vel þegin. Það munaði um hvern eyri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×