Innlent

SÞ myndu stofna rannsóknarnefnd

Forðast ber hættuleg svæði. Þetta segir Steinar Berg Björnsson um atburðina í Kabúl fyrir nokkru. Hann hefur að líkindum meiri reynslu en nokkur annar Íslendingur af friðargæslu og segir að Sameinuðu þjóðirnar muni stofna rannsóknarnefnd til að kanna hvað hafi gerst. Steinar hefur mikla og víðtæka starfsreynslu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann hefur starfað í 22 ár, þar af í 10 ár sem yfirmaður friðargæslu Sameinuðu þjóðanna. Hann þekkir því að líkindum betur en nokkur annar Íslendingur til friðargæslustarfa, og hann segir friðargæslu að stórum hluta hernaðarstarf. Henni sé ætlað að binda enda á ofbeldi, og því þurfi oft að beita valdi. Steinar segir þó mörg störf í friðargæslunni ekki þurfa á vopnum að halda. Fyrir hvern vopnaðan mann séu kannski á milli 10 og 15 önnur störf, sem ekki krefjist vopna. Íslenska friðargæslan hefur verið töluvert til umræðu undanfarið í ljósi atburðanna í Kabúl, þegar sjálfsmorðssprengjuárás var gerð á hóp friðargæsluliða þar. Steinar segir um þá atburði að menn verði að gæta sín á hættulegum stöðum og fara ekki út fyrir þau svæði sem þeim sé ætlað að vera á. Hann segir að friðargæsla Sameinuðu Þjóðanna myndi líklega skapa ákveðna nefnd um atburð eins og þann sem átti sér stað í „Chicken Street", þar sem reynt yrði að komast að sanngjarnri niðurstöðu fyrir þann sem tekið hefði ákvörðunina og eins þá sem orðið hefðu fyrir hnjaski hennar vegna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×