Innlent

Afskipti utan verksviðs ráðherra

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ætlar ekki að hlutast til um rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á þætti einstaklinga í verðsamráði olíufélaganna. Þetta kom í svari hans við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi í fyrradag. Björn sagðist telja að það væri fyrir utan hans verksvið sem ráðherra að skipta sér af rannsóknum mála. Hins vegar væri það hans hlutverk að skapa embætti Ríkislögreglustjóra viðunandi starfsaðstæður. Jóhanna Sigurðardóttir spurði ráðherrann hvort hann væri reiðubúinn að beita sér fyrir því að deildin fengi meira fjármagn og mannafla til að flýta rannsókn á þætti einstaklinga í verðsamráðinu. Sérstaklega í ljósi þess að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, sem fer með rannsókn málsins, hafi ekki nægan mannafla og dráttur á rannsókn mála hjá deildinni hafi leitt til þess að refsingar hafi verið mildaðar fyrir dómi. Jóhanna sagði í umræðum á Alþingi að það væri nauðsynlegt að fá sem fyrst niðurstöðu í rannsókninni sem hófst fyrir um ári síðan, bæði til að eyða allri óvissu í málinu olíufélögunum til hagsbótar og til að forðast fyrningu saka. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hvort ráðherrann teldi að ekki mætti flýta niðurstöðu með auknu tímabundnu fjármagni umfram þær fimmtán milljónir króna sem veitt hefði verið til embættisins í fjáraukalögum síðasta árs og fjárlögum þessa árs. Enda væru þær líka ætlaðar til þess að hraða rannsóknum á öðrum mikilvægum málum sem séu til meðferðar hjá efnahagsbrotadeildinni eins og fíkniefnamálum. Björn Bjarnason sagði að hann teldi það rétt að efnahagsbrotadeildin efldist til að takast á við flóknari brot. Starfsmönnum deildarinnar hafi þess vegna verið fjölgað tímabundið um þrjá á síðasta ári, ekki síst vegna rannsóknar á verðsamráði olíufélaganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×