Innlent

Kosið um sameiningu á morgun

Kosið verður um sameiningu hreppanna sunnan Skarðsheiðar á morgun. Það verður í fyrsta sinn sem íbúum sveitarfélaganna gefst kostur á að kjósa um sameininguna en sameiningarviðræður hafa verið uppi á borðinu í um það bil fimmtán ár. Nefnd sem undirbjó sameininguna tók til starfa í byrjun þessa árs. Að mati hennar styður margt sameininguna, svo sem landfræðilegar aðstæður og mikið samstarf á fjölmörgum sviðum. Verði sameiningin samþykkt verða íbúar sameinaðs sveitarfélags 560 og atvinnulíf í því mun að mestu byggjast á stóriðju á Grundartanga. Hreppirnir fjórir eru Innri-Akraneshreppur, Hvalfjarðarstrandahreppur, Leirár- og Melahreppur og Skilmannahreppur. Ef sameiningin verður felld af íbúum hafa stjórnvöld áskilið sér rétt til að leggja fram nýja tillögu sem kosið verður um í apríl á næsta ári. Kjörfundir verða frá klukkan tíu til sex og fer kosning fram í félagsheimilunum Miðgarði, Heiðarborg, Hlöðum og Fannahlíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×