Innlent

Sprengja í tryggingum fyrir hross

Sprenging hefur orðið í ábyrgðartryggingum fyrir hross í sumar og haust, að sögn Brynju Tomer hjá Vátryggingafélagi Íslands. "Það eru óskaplega margir hestamenn sem eru að taka ábyrgðartryggingar fyrir hross sín þessar vikurnar," sagði Brynja Tomer hjá VÍS. "Það er algjör sprengja í því. Í því felst að valdi hestur tjóni, þá sé hann tryggður gagnvart því." Brynja sagði að þetta væri vissulega breytt viðhorf hjá hestamönnum. Þarna væru menn að sýna ábyrgð á sínu hestahaldi gagnvart samborgurum sínum. Kostnaðurinn við slíka tryggingu sé 2.000 krónur á ári. Athyglisvert væri að fjöldi fólks væri að taka stakar tryggingar, en aðrir kysu hins vegar að taka þær inn í tryggingapakka. Þá sagði hún að menn gerðu mikið af því að líftryggja og slysatryggja hesta sína. Hestamennskan væri lífsstíll hjá fólki og ef menn misstu góðan reiðhest þá gæti hestamennskan verið í uppnámi. Menn væru að tryggja allt frá folöldum og upp í verðmætustu gæðingana og kynbótahrossin sín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×