Innlent

Bílaraðir í ófærðinni

Þungfært var á höfuðborgarsvæðinu í snjókomunni í gærmorgun og síðdegis á þriðjudag og mynduðust stíflur vegna illa útbúinna bíla og langar bílaraðir á öllum helstu umferðaræðum á höfuðborgarsvæðinu. Hratt og vel gekk þó að skafa og gekk umferð áfallalítið í gær. Þrettán árekstrar höfðu átt sér stað í Reykjavík síðdegis en engin alvarleg slys höfðu orðið á mönnum. Smávægilegar seinkanir urðu á flugi til Vestmannaeyja og Ísafjarðar í gærmorgun og á þriðjudag varð seinkun í flugi til Egilsstaða og Akureyrar. Ísafjarðarvélin komst ekki suður síðdegis á þriðjudag og var því stopp yfir nótt. Lokið var við að skafa flugbrautirnar á Reykjavíkurflugvelli síðdegis í gær. Vetrarfæri var um allt land í gær og fyrradag, hálkublettir, hálka eða snjóþekja en helstu leiðir á landinu voru opnar. Öxi, Hellisheiði eystri og aðrar fáfarnar leiðir voru lokaðar en aðrar leiðir færar. Hálkublettir leyndust víða, t.d. á Reykjanesbrautinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×