Innlent

Skrifað undir orkusamning

Norðurál, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja skrifuðu undir orkusamning í dag vegna stækkunar álversins á Grundartanga, sem þá verður stærsta álver dagsins. Ef Orkuveitu Reykjavíkur tekst að útvega meiri orku stendur til að stækka álverið enn meira. Verði af þeirri stækkun fjölgar starfsmönnum álversins um hátt í þrjú hundruð. Skrifað var undir samning þessarra fyrirtækja í apríl vegna stækkunar álversins úr 90 í 180 þúsund tonn, en í dag var skrifað undir viðbótarsamning sem gerir ráð fyrir að ársframleiðsla álversins verði 212 þúsund tonn að ári. Reyndar er stefnt að því að auka framleiðsluna á næsta ári í 220 þúsund tonn. Miðað við 212 þúsund tonna ársframleiðslu aukast útflutningsverðmæti landsins um 15 milljarða króna og verða því um 27 milljarðar þegar þessari stækkun verður lokið. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir samninginn tvíþættan; annars vegar verði seld 20 megavött frá Reykjanesvirkjun og síðan verði hugsanlega seld 15 megavött til viðbótar úr Svartsengi, sem þurfi að vísu leyfi fyrir. Gert sé ráð fyrir því að 1. febrúar liggi það fyrir hvort seld verði 20 megavött, eða 35. Orkuveita Reykjavíkur ætlar að afla orkunnar frá Hellisheiðarvirkjun, þar sem keyptar voru stærri vélar en upphaflega var áætlað, auk þess sem umframorka er til á Nesjavöllum. Norðurál er hins vegar með hugmyndir uppi um að stækka álverið upp í 260 þúsund tonn. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir að við það flækist málið, enda þurfi að bæta við 70 megavöttum. Verið sé að skoða þrjá möguleika, að taka upp nýtt svæði á Hengilssvæðinu, að bæta við Nesjavallarsvæðið, eða nýta betur orku á Hellisheiði. Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, segir að ekki sé hægt að taka ákvörðun um hvort af stækkuninni verði fyrr en ljóst sé hvort orkan sé fyrir hendi og á hvaða verði hún verði. Það liggi vonandi fyrir í upphafi næsta árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×