Innlent

Alnæmisveira í köttum

Alnæmisveira hefur fundist í íslenskum köttum. Framvegis þurfa eigendur katta sem flytja hingað til lands að framvísa vottorði um að kettirnir séu ekki með veiruna. Alnæmisveiran fannst fyrst í köttum hér á landi fyrir þremur árum þegar nemendur í dýralækningum tóku sýni úr rúmlega eitthundrað köttum, aðallega villiköttum eða útigangsköttum. Sérstaklega var leitað eftir alnæmisveirunni og veiru sem veldur hvítblæði. Þrír kettir reyndust vera með alnæmi og þrír með veiruna sem veldur hvítblæði. Alnæmisveiran smitast ekki milli dýrategunda og því er engin hætta þessu samfara fyrir mannfólkið. Alnæmisveira kattanna brýtur hinsvegar niður ónæmiskerfið. Hún smitast helst við bit, en ekki þegar dýrin eðla sig. Því eru það helst fresskettir sem verða fyrir barðinu á henni, þegar þeir kljást um læður. Nú liggja fyrir drög að reglugerð um að gelda skuli alla fressketti sex mánaða og eldri sem ganga lausir í Reykjavík. Kattaalnæmi er enn sem komið er ekki faraldur hér á landi en Jyllandsposten greinir frá því að fimmti hver villiköttur á Fjóni sé smitaður og smiti heimilisketti þegar þeir fari út.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×