Innlent

Kærir húsnæðislán bankanna

Jóhannes Valdemarsson rekstrarfræðingur hefur kært viðskiptabankana til Samkeppnisstofnunar vegna nýrra húsnæðislána sem þeir bjóða upp á. Hann telur ýmislegt í tilboðum bankanna brjóta í bága við samkeppnislög. Bankarnir hafa auglýst 4,2 prósenta vexti og allt að 100 prósent lánshlutfall af verði íbúða. Jóhannes telur að bankarnir brjóti með þessu lög þar sem þeir auglýsi ekki með réttum hætti það sem í boði sé. Ekki sé tekið fram í auglýsingum að lánþegar þurfi að kaupa aðra þjónustu af bönkunum til að njóta þessara kjara, til dæmis tryggingar eða yfirdráttareikning. Það er álit Jóhannesar að krafa um þetta bjóti í bága við lög. Það sé líka ólöglegt að bankarnir fái greiðslur úr tryggingum lánþegans komi eitthvað fyrir hann. Þá þykir Jóhannesi það ótryggt fyrir lántakendur að bönkunum sé frjálst að breyta uppgreiðslugjaldi eftir eigin höfði. Þannig gæti seljandi eignar lent í því að greiða stórar upphæðir þurfi þeir að greiða upp lánið, til dæmis við sölu fasteignar. Í kæru til Samkeppnisstofnunar nefnir Jóhannes einnig dæmi um að í skuldabréfi vegna húsnæðisláns sé kveðið á um að vextir af því séu 5,1 prósent en skuldari sem uppfyllir skilyrði bankanna fái allt að 0,9 prósentustiga afslátt af vöxtunum. Að sögn Jóhannesar segir í fylgibréfi að bönkunum sé heimilt að falla fyrirvaralaust frá þessum afslætti uppfylli skuldarinn ekki lengur þessi skilyrði. Hins vegar sé hvergi minnst á það í skuldabréfinu hver skilyrðin séu sem lántakandinn þurfi að uppfylla. Þegar hann hafi leitað eftir upplýsingum um það hafi hann engin svör fengið. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir að í þessum viðskiptum eins og öðrum gildi sú regla að menn geti samið sín á milli. Ef bankarnir telji sig vera með sérstaklega góð kjör á lánum sé ekki óeðlilegt að þeir tengi þau við aðra þjónustu sem þeir bjóða upp á. Viðskiptamönnum sé líka frjálst að eiga ekki viðskipti við einstaka banka þyki þeim kjörin óviðunandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×