Innlent

Skólahald orðið eðlilegt á ný

Skólahald á Suðvesturlandi var með eðlilegum hætti í morgun eftir þá ákvörðun stjórna kennarafélaga og trúnaðarmanna grunnskólakennara í gær, að mæta aftur til vinnu. Jafnframt ákvörðun um að mæta í dag, settu þeir fram kröfu um 130 þúsund króna eingreiðslu, 5,5 prósenta launahækkun strax, óskert sumarlaun og óskerta annaruppbót. Samningafundur kennara og fulltrúa sveitarfélaganna, sem hófst hjá Ríkissátasemjara klukkan tíu í gærmorgun stóð fram yfir miðnætti og komu samningamenn aftur saman hjá Ríkissáttasemjara klukkan níu í morgun. Þeir vinna nú í kappi við tímann við að reyna að ljúka samningsgerð fyrir helgi, eða áður en ákvæði laga um að vísa málinu í gerðardóm tekur gildi. Eiríkur Jónsson formaður kennarasambandisns sagði í viðtali við Fréttastofuna í morgun að hann væri hvorki bjartsýnn né svartsýnn á að þetta tækist. Auk samningamanna kennara, er nú fjölmennur hópur trúnaðarmanna og formanna svæðisstjórna í húsakynnum Ríkissáttasemjara , væntanlega til taks ef samningamenn vilja bera eitthvað þýðingarmikið undir þá. Fréttastofan hefur ekki frétt af skriðu uppsagna í morgun en nokkrir tugir kennara hafa skráð sig í atvinnumiðlun kennara, sem opnuð hefur verið á netinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×