Innlent

Vanvirðing við Alþingi

Ríkisstjórnin var sökuð um að sýna Alþingi lítilsvirðingu þegar formaður Samfylkingarinnar mælti fyrir þingsályktunartillögu um að Ísland drægi stuðning sinn við Íraksstríðið til baka. Enginn ráðherra var viðstaddur. Össur Skarphéðinsson mælti fyrir tillögunni sem kveður á um að Íslendingar afturkalli stuðning sinn við innrásina í Írak og fari þar með af lista hinna viljugu þjóða. Þá verði kannaðar ástæður og aðdragandi þess að Ísland var að finna á þessum lista í upphafi. Hann sagðist finna til í hjarta sínu fyrir að vera hluti af þjóð sem hægt væri að segja með réttu að bæri siðferðislega ábyrgð á því sem væri að gerast í Írak. Og Össuri lá þungt orð til ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem þeir voru allir fjarstaddir umræðuna. Hann fór hörðum orðum um forsætisráðherra, sem hann sagði að færi undan á flótta. Hann skammaðist sín fyrir að binda Ísland við það sem væri að gerast í Írak. Össur sagði ráðherra skammast sín fyrir að hafa meinað þingmönnum sem tengdust utanríkismálanefnd um að ræða málefni Íraks. Kolbrún Halldórsdóttir, Vinstri Grænum, sagði meginástæðu innrásarinnar hafa verið rangar og forystumenn Bandaríkjanna og Breta hefðu viðurkennt það. Slíkt gerðu íslenskir ráðmenn hins vegar ekki og þeir þorðu ekki einu sinni að ræða málið.Sólveig Pétursdóttir formaður Utanríkismálanefndar sagði að málið væri til umræðu í nefndinni og ekki ljóst hvað hægt væri að gera meira að svö stöddu. Hún sagði stjórnvöld hafa reynt að gera það sem í þeirra valdi stæði til að uppræta hryðjuverk í heiminum. Það væri alþekkt að Saddam Hussein hefði verið harðstjóri, sem nauðsynlegt hefði verið að losna við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×