Innlent

Óvissa annan daginn í röð

Starfsemi grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu var í uppnámi annan daginn í röð. Einungis var full kennsla í 7 skólum af 34. Aðeins helmingur kennara sá sér fært að mæta til vinnu, en þeir eru sagðir verða fyrir þrýstingi og áreiti af hálfu hinna, sem heima sátu. Víða á landsbyggðinni var skólastarf í eðlilegu horfi, en það var upp og ofan hvernig það gekk fyrir sig í skólum borgarinnar. Sumstaðar var engin kennsla, annarsstaðar var aðeins kennsla hjá yngri börnum. Víða var boðið upp á gæslu en þó var það ekki algilt. Í mörgum tilvikum gekk foreldrum illa að afla sér upplýsinga um það hvort börn þeirra ættu að mæta eða ekki, og sumir þurftu að sækja börnin aftur í skólana. Ástandið kom mörgum í opna skjöldu, enda höfðu fræðsluyfirvöld boðað að fullu skólastarfi yrði haldið uppi. Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs Reykjavíkur, segir að óskað hafi verið eftir því í gær að haldið yrði uppi fullu skólastarfi í dag og margir hafi staðið sig afbragðsvel, bæði skólastjórar og kennarar. Það er stigsmunur á þeirri gæslu sem tugum þúsunda barna var boðið upp á í skólunum í dag og þeirri þjónustu sem þeim ber lögum samkvæmt að fá. Þrátt fyrir það er enn ómögulegt að segja til um hvert framhaldið verður. Helgi Árnason, skólastjóri í Rimaskóla, segist hafa reiknað með að fullt skólastarf yrði í dag og hann reikni með því sama fyrir morgundaginn, en um það sé einfaldlega afar erfitt að spá. Um helmingur grunnskólakennara í borginni mætti ekki til vinnu í dag. Almenna reglan er sú að fólk skili inn veikindavottorði ef það er veikt lengur en þrjá daga. Bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa þó sent tilmæli til skólastjórnenda um að kalla eftir vottorði frá kennurum sem hafa verið veikir í tvo daga. Formaður fræðsluráðs segir enga ákvörðun hafa verið tekna um slíkt vegna fjarvista kennara í Reykjavík. Hann hvetur þá til að mæta til starfa og biður um þeir láti af þrýstingi á þá kennara sem kjósa að verða við því. Hann segist harma það hve mikill þrýstingur sé settur á þá kennara sem vilji vinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×