Innlent

Íslensk innrás

Íslenska innrás kalla norskir fjölmiðlar bankakaup Íslendinga í Noregi. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, segist þó ekki óttast þessa íslensku útþenslu, hann hafi ekki ástæðu til að ætla annað en að íslenskir bankamenn séu heiðarlegir. Íslenskir bankar eru komnir í harðakapphlaup á Norræna markaðinum. Það er ekki bara Íslandsbanki sem hefur sett klærnar í norsk fjármálafyrirtæki að undanförnu. KB banki sem þegar er orðinn umsvifamikill í Svíþjóð og Danmörku og vaxandi í Finnlandi hefur líkt og Íslandsbanki sótt inn á norska markaðinn og hyggur á enn frekari útþenslu þar. Norskir fjölmiðlar hafa fjallað þó nokkuð um þessa innrás íslensku bankana og ekki alltaf á vinsamlegum nótum. KB banki sem nýlega keypti verðbréfafyrirtæki hefur legið sérstaklega vel við höggi. "Íslenskir bankar vilja eignast Noreg", "Íslensk innrás" og "Kaup hitt og þetta", eru nýlegar fyrirsagnir í norskum blöðum og þar hefur KB banki meðal annars verið spyrtur saman við villtar veislur, innherjaviðskipti og fylgdarstúlkur. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, segist trúa því að um heiðarlega kaupsýslumenn sé að ræða og Norðmenn séu almennt opnir fyrir því að fá erlenda fjárfesta inn í landið. Formaður Framfaraflokksins í Noregi segir frábært að bankar starfi í mörgum löndum og gott væri ef norskir bankar færu að fordæmi hinna íslensku. Hann segist bjóða íslensku bankana hjartanlega velkomna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×