Innlent

Hvetur kennara til að mæta

Forsætisráðherra hvatti kennara á Alþingi í dag til að fara að lögum. Sama gerði formaður Samfylkingarinnar. Staðan í kennaradeilunni kom til umræðu við upphaf þingfunda í dag þegar þingmaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, innti menntamálaráðherra eftir því hvernig grunnskólabörnum yrði bættur skaði vegna tapaðra kennsludaga. Ráðherrann kvaðst hafa rætt málið innan ríkisstjórnar og við Samband íslenskra sveitarfélaga og væri sú vinna hafin á fullu. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, blandaði sér í umræðuna með því að hvetja til þess að deiluaðilar færu að lögum. Hann sagði að þó að mönnum líkaði ekki lög yrði að virða þau engu að síður. Hann sagði að málið yrði ekki leyst nema á grundvelli laga. Halldór sagðist vænta þess að allir þingmenn gætu hvatt samningsaðila til að berjast fyrir því að starfið í skólum landsins hæfist á morgun. Össur Skarphéðinsson, formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins, tók undir þetta. Hann sagðist ósamþykkur lögunum, en lög væru eigi að síður lög og eftir þeim yrði að fara, jafnvel þó maður væri á móti þeim. Hann sagði Íslendinga eigi að síður hafa fullan skilning á því að það hafi verið erfitt fyrir kennara að taka lögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×