Innlent

Ætla að kaupa BN-bankann

Íslandsbanki býðst til að kaupa öll hlutabréf í norska BN-bankanum. Tilboðið er lagt fram hálfum öðrum mánuði eftir að Íslandsbanka var veitt heimild til að kaupa Kredítbankann. Íslandsbanki vill staðgreiða hlutinn á 320 norskar krónur, sem er um 19 prósentum yfir gengi bankans í norsku Kauphöllinni í lok síðasta viðskiptadags og 25 prósentum yfir meðalgengi síðastliðinna sex mánaða, segir í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka. Ef lögð eru saman hlutabréf sem þegar eru í eigu Íslandsbanka og vilyrði sem gefin hafa verið fyrirfram um sölu bréfa í samræmi við tilboðið, hefur Íslandsbanki nú þegar tryggt sér um 46 prósent hlutabréfa í BNbank. Íslandsbanki hefur skilgreint Noreg og Ísland sem heimamarkaði og hyggst leggja áherslu á frekari vöxt á norska markaðnum. BNbank er afar samkeppnishæft og vel rekið fjármálafyrirtæki, sem náð hefur markverðum árangri og fellur vel að stefnu Íslandsbanka. Tilkoma BNbank, með sinn trausta rekstur og öfluga árangur, mun marka stöðu og afkomu Íslandsbanka umtalsvert í framtíðinni. Áætlað tilboðstímabil er frá og með 29. nóvember til og með 17. desember Tilboðið í BNbank er háð hefðbundnum skilyrðum, svo sem samþykki yfirvalda. Íslandsbanki mun fjármagna kaupin með útgáfu nýrra hluta og með víkjandi lánum. Framtíðarsýn Íslandsbanka er að sameina Íslandsbanka og BNbank í öfluga íslensk-norska bankasamstæðu. Hyggst Íslandsbanki kanna kosti samhliða skráningar hlutabréfa bankans í Kauphöllinni í Ósló auk Kauphallar Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×