Innlent

Geðdeildum fyrir hundruð lokað

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar sagði í utandagskrárumræðum um stöðu geðfatlaðra á Alþingi í gær að geðdeildum með á annað hundrað rúmum hefði verið lokað á Landspítalanum á síðustu átta árum: "Ekkert hefur komið í staðinn til þess að mæta umönnunar- og þjónustuþörf mikið veikra sjúklinga." Í umræðunum kom fram að 380 einstaklingar með geðrænan vanda biðu eftir meðferð á Reykjalundi og biðtími væri eitt ár. Þá væri staða 20-30 heimilislausra mikið geðveikra einstaklinga afleit . Að auki hefðu aldrei jafn margir beðið eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeild: 90 biðu eftir mati og meðferð og tæki biðin 6-8 mánuði. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra vísaði á bug að "hundruð manna ráfuðu um götur borgarinnar án þess að fá viðeigandi meðferð og úrræði". Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar fóru fram á í dag við forseta Alþingis að rætt yrði á ný um málefni geðfatlaðra utan dagskrár við fyrsta tækifæri



Fleiri fréttir

Sjá meira


×