Innlent

Lekinn algerlega óþolandi

Guðmundur Árni Stefánsson, fyrsti varaforseti Alþingis, segir það algerlega óþolandi að stefnuræða forsætisráðherra skuli hafa lekið til fjölmiðla, áður en hún er flutt, annað árið í röð. Hann segir að í raun sé fátt hægt að gera til að stöðva slíkan leka og hann er þeirrar trúar að sami þingmaður hafi lekið ræðunni í fyrra og núna. Stöð 2 greindi frá innihaldi stefnuræðu forsætisráðherra í fyrra áður en ráðherra flutti hana á Alþingi. Nú hefur það sama gerst - ræðan hefur lekið til fjölmiðla fyrir flutning. DV greinir frá innihaldi ræðunnar í dag. Guðmundur Árni segir ræðunni dreift til þingmanna nokkrum dögum fyrir flutning hennar svo þeir geti kynnt sér innihald hennar og tekið þátt í eldhúsdeginum sem er í kvöld. Hann segir það sér algjörlega óskiljanlegt að einhver þingmanna skuli finna hjá sér hvöt til að leka henni til fjölmiðla og segir Guðmundur að með þessu geri þingmaðurinn hina að blórabögglum því allir liggi undir grun. Alþingismennirnir 63 fá ræðuna þremur dögum áður en forsætisráðherra flytur hana. Guðmundur segist ekki hafa neinn einstakan þingmann undir grun en væntir þess að sá hinn sami sjái að sér. Hann segir að málið hafi verið rætt í forsætisnefnd í fyrra en að enginn botn hafi fengist í það þá. Málið hafi ennfremur verið rætt í þingflokki Samfylkingarinnar þar sem allir sóru af sér að hafa lekið ræðunni í fjölmiðla. Guðmundur Árni gerir ráð fyrir að aðrir þingflokkar hafi gert slíkt hið sama. Guðmundur segir að í fyrra hafi menn viðrað þá hugmynd að einungis þeir þingmenn sem taki þátt í umræðunum fái ræðuna fyrirfram, og eins hafi Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, léð máls á að breyta þingsköpum til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig. Guðmundur Árni er ekki hrifinn af þessum hugmyndum því hann neitar að trúa því að það verði viðtekin venja að menn leki trúnaðarupplýsingum til fjölmiðla.  Forsætisráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu vegna málsins í morgun eins og greint var frá á Vísi. Ráðuneytið harmar að þetta skuli gerast annað árið í röð og ætlar forsætisráðherra að óska eftir viðræðum um málið við forseta Alþingis.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×