Innlent

Ráðherra þrýsti á borgaryfirvöld

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins skorar á Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra að þrýsta á borgaryfirvöld að fara í framkvæmd mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut á undan Sundabraut. "Þegar tekin er ákvörðun um forgangsröð vegafjár á öryggissjónarmiðið fyrst og fremst að ráða för," segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. "Ég vil ítreka það að þetta er ekki bara spurning um peninga heldur umferðaröryggi. Með því að fá mislæg gatnamót þá mun umferðaróhöppum að minnsta kosti fækka um helming og hugsanlega meira en 90 prósent." Borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna munu leggja fram tillögu í borgarráði í dag um að mislægu gatnamótin verði forgangsframkvæmd. Kjartan segir að orð Jónasar Snæbjörnssonar, umdæmisstjóra Reykjanessumdæmis Vegagerðarinnar, um að Sundabrautin komi til með að auka álag á Miklubraut en ekki minnka það eins og Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, hélt fram, merkileg. "Mér fannst Árni reyndar komin út á hálan ís þegar hann talaði um Sundbrautina sem einhverja aðgerð til að draga úr álagi á Miklubraut. Sundabrautin er auðvitað mjög þörf framkvæmd og við styðjum hana auðvitað en stóra skekkjan hjá R-listanum er að stilla þessum framkvæmdum upp hvorri gegn annarri."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×