Innlent

Olíuverð að sliga veiðar

"Það er mjög á brattann að sækja hjá útgerðum sem eru á kolmunna og rækjuveiðum vegna lítilla verðmæta afurðanna og hækkaðs olíuverðs," segir Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna. Árni segir skip sem notuð eru á kolmunnaveiðum fara með óhemjumagn af olíu og því eigi útgerðirnar erfiðara með að ná verðmætum úr aflanum þegar olíuverð er í sögulegu hámarki eins og nú er. Þá sé mjög lélegt verð á rækju á heimsmarkaði og þegar bætist við að olíukostnaðurinn er orðinn svo stór hluti af heildarkostnaðinum er eins og útgerðir treysti sér ekki til að halda áfram veiðunum. Árni segir til að mynda að útgerðarfélagið Brim á Húsavík hafi gefist upp á rækjuveiðum á einu skipa sinna og því hafi verið breytt til að fara á bolfisksveiðar. Á vefsíðu Þormóðs ramma segir að yfirmönnum á rækjuskipunum Stálvík og Sólbergi hafi verið sagt upp störfum vegna ört minnkandi rækjuveiði og hás olíuverðs. Árni segir mikið keypt af rækju frá útlöndum, Rússarækju svokallaðri, og ætla megi að útgerðirnar telji það hagkvæmara en að sækja rækjuna sjálfir. Hagstæðara sé að kaupa rækjuna til vinnslu og pökkunar hér á landi. Hægt er að vera með tíu Rússa í vinnu á móti einum Íslendingi, því sé við ramman reip að draga. Árni segir að vonast sé til, og einhverjar vísbendingar séu þar um, að olíuverðið sé á niðurleið. Hins vegar sé spurning hversu neðarlega verðið verði að fara svo menn telji vera rekstrargrundvöll fyrir veiðarnar. Þá þyrfti rækjan einnig að hækka í verði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×