Innlent

Sjóðurinn gæti orðið gjaldþrota

Ef húseigendur kjósa í ríkum mæli að endurfjármagna lán sín hjá bönkunum í ljósi betri kjara gæti Íbúðalánasjóður orðið gjaldþrota að mati forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskólans. Hann ráðleggur Íbúðalánasjóði að bjóða endurfjármögnum húsnæðislána í takt við það sem gerist nú á frjálsum markaði. Bankarnir bjóða viðskiptavinum sínum mjög góð kjör á húsnæðislánum. Það fylgir hins vegar sá böggull skammrifi að lántakendur taka á sig uppgreiðsluáhættuna. Kjósi þeir að greiða upp lánið og endurfjármagna það áður en lánstíma lýkur standa þeir frammi fyrir því að bankarnir rukka þá um ávöxtunarkröfu bréfanna að einhverju marki. Þeir njóta því ekki til fulls þeirra vaxtalækkana sem geta orðið í framtíðinni. Það er þessi áhætta sem Íbúðalánasjóður hefur tekið fyrir viðskiptavini sína. Kjósi meirihluti þeirra nú að greiða upp lán sín hjá Íbúðalánsjóði með nýju láni frá bönkunum getur það komið sjóðnum í erfiða stöðu. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir að ef þetta verði í miklum mæli, kannski í hundruðum milljörðum talið, þá verður misvægi á milli þeirra lána sem Íbúðalánasjóður býður upp á og þeirra vaxtataekna sem þeir fá inn. Það þýðir aukin rekstraráhætta fyrir sjóðinn. Aðspurður hvort Íbúðalánasjóður gæti orðið gjaldþrota segir Tryggvi að hann sé í þokkalegri stöðu í dag en það gæti breyst fljótt. Hann ráðleggur sjóðnum að bjóða húseigendum með eldri lán að endurfjármagna þau í samræmi við þau vaxtakjör sem nú bjóðast.  Hallur Magnússon, sviðsstjóri hjá Íbúðalánsjóði, segir sjóðinn þola um eitt hundrað milljarða uppgreiðslu án þess að haggast. Hann segir ekki standa til að bjóða eldri lántakendum ný kjör. Ef mikið verði um uppgreiðslur á húsbréfum á næstu vikum og mánuðum komi það ekki mikið við sjóðinn því hann þoli slíkar greiðslur upp á rúmlega hundrað milljarða, og vel það. Hallur segir það ekki hagkvæmt að greiða upp nema tiltölulega lítinn hluta húsbréfa og gerir hann ráð fyrir því að skynsemi fólks komi í veg fyrir að það framkvæmi slíkt. Ef það gerist þyrfti Íbúðalánasjóður að hækka vaxtaálagið til að standa undir mögulegum mismun á inngreiðslum og útgreiðslum. Það myndi hins vegar ekki gerast fyrr en eftir hundrað milljarða og því ekki skaða sjóðinn í sjálfur sér. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×