Innlent

Latur fluttur

Unnið er að stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn um þessar mundir. Vegna framkvæmdanna þurfti að flytja 60 tonna þungt bjarg sem ber hið skemmtilega nafn Latur. Sigurður Jónsson, bæjartæknifræðingur í Þorlákshöfn, segir að Latur eigi sér nokkuð merkilega sögu. Þegar menn hafi róið árabátum hér áður fyrr hafi hann jafnan verið notaður sem viðmið. Það hafi til að mynda verið níu til tólf áratog að láta Lat ganga fyrir Geitafellið. Í barningi hafi það getað verið 90 til 100 áratog og jafnvel fleiri, en þá hafi verið komið það sem kallað var ódrægur sjór. Latur dregur nafn sitt af því að í miklu brimi færðist hann ofurlítið til. Talið er að síðustu áratugi hafi hann færst um nokkra tugi metra. Það þurfti þrjár stórar gröfur til að flytja Lat frá urðinni vestur á Bjargi inn á Hverfisverndarsvæðið. Sigurður segir að Latur sé fyrsta verkefnið í að byggja upp svæðið. Innan þess séu tóftir af búðum, görðum, birgjum, brunnar og fleira. Indriði Kristinsson hafnarstjóri segir að verið sé að stækka höfnina um 70 þúsund fermetra til að skip geti betur athafnað sig inni í henni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×